Edwin Roald

Kylfingur vikunnar     Hvenćr byrjađir ţú í golfi og hvers vegna? Ég man svo vel ađ ég fékk mikinn og skyndilegan áhuga á golfi ţegar ég sá Severiano

Kylfingur vikunnar - Edwin Roald

Kylfingur vikunnar

 

 

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?

Ég man svo vel að ég fékk mikinn og skyndilegan áhuga á golfi þegar ég sá Severiano Ballesteros heitinn leika golf í sjónvarpinu. Mig minnir að hann hafi verið í holukeppni við Dennis Durnian. Þarna sló hann ævintýraleg högg utan um trjástofna, undir greinar og yfir. Nefndu það. Ég heillaðist. Ég held að Ballesteros hafi haft þessi áhrif á mjög marga. Hann var spennandi.

 

Hefur þú verið í öðrum íþróttum? 

Jújú, þótt frammistaða mín hafi sjaldnast náð slíkum hæðum að hún geti talist mikil íþróttamennska. Ég hef komið nálægt knattspyrnu, körfuknattleik, handknattleik og frjálsíþróttum.

 

Helstu afrek í golfinu?

Þau eru hvorki mörg né sérstaklega stórbrotin. Get þó sagt að ég hafi borið sigurorð af Ross Fisher í óformlegri keppni í Englandi um árið. Það var líka fyrsti hringur sem ég náði að leika undir pari. Ég átti auðvitað aldrei aftur séns í Fisher, sem hefur síðan sigrað á Evrópumótum, leikið í Ryder-bikar fyrir Evrópu og verið nærri sigri á risamótum eins og Opna breska.

 

Hver eru helstu markmiðin? 

Að spila meira en ég hef gert síðustu ár, svo ég haldi tilfinningu fyrir því hvað það er sem fær hjarta kylfingsins til að slá. Sú tilfinning er nauðsynleg í mínu starfi.

 

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum? 

Ég datt einu sinni ofan í skurð á 15. braut í Grafarholtinu og var meinaður aðgangur í klúbbhúsið vegna sóðaskapar sem af hlaust. Ég tek þess vegna undir að sú braut geti verið erfið, eins og margir segja, en e.t.v. af öðrum ástæðum en flestir nefna. 

 

Áttu þér einhverja fyrirmynd í golfinu / uppáhaldskylfing? 

Mér finnst ákaflega gaman að fylgjast með Luke Donald. Mér finnst hann hafa komist einna næst því að ná gernýta sína hæfileika. Ég fylgist líka alltaf með bekkjarbróður mínum, Ross Fisher.

 

Sterkustu hliðar?

 Að lágmarka skaðann og halda boltanum í leik þrátt fyrir mörg skrautleg högg. 

 

Veikustu hliðarnar?

 Járnahöggin. 

 

Hvaða hluta golfleiksins ætlar þú að bæta?

 Ég verð að horfast í augu við veikleika mína og ná betri tökum á járnunum, hitta fleiri flatir. Stundum hitti ég ekki flöt þótt hún sé svo nærri að ég gæti sparkað boltanum inn á hana.

 

Uppáhalds kylfa? 

Driverinn. Nota hann nánast alltaf af teig og get slegið allt niður í um 150 m með honum. Nota hann líka oft af braut eða jafnvel ef boltinn liggur vel í karga. Hef verið spurður hvort ég sofi með hann uppi í rúmi, sem ég hef stundum íhugað.

 

Hvert er þitt besta högg nokkru sinni?

Ég man aldrei nógu langt aftur, en mér varð mjög létt þegar mér tókst einhvern veginn að koma boltanum um hálfan metra frá stöng með fleygjárni á lokaholu í úrslitaleik til að forðast fall í 5. deild í sveitakeppninni í fyrra. Það er allt annað að spila í sveitakeppni, því þá þarftu að standa þig, ekki aðeins í þína eigin þágu heldur annarra líka. Þetta var það innáhögg mitt síðasta sumar sem komst næst holu og ég var ánægður að það skyldi gerast þegar þörfin var mest.

 

Eftiminnilegasta atvik úr golfinu? 

Í fyrra lenti ég í nokkru sem mig óraði aldrei fyrir að gæti gerst, eða að menn stunduðu. Ég var að leika Korpuna með Kristjáni Jónssyni íþróttablaðamanni, Kristni Gíslasyni (föður Ólafíu Þórunnar Íslandsmeistara) og Birni Ólafssyni, umbrotsmanni á Morgunblaðinu. Birni varð á að slá langt upp til vinstri í 2. höggi sínu á þriðju braut. Þar er almennur göngustígur eins og víða annars staðar á Korpuvellinum. Við finnum ekki boltann í fljótu bragði, en hvað heldurðu, skyndilega birtist eiginkona Björns, sem var þarna á gangi og benti fyrirhafnarlítið á boltann eins og ekkert væri sjálfsagðara. “Hann er hérna,” sagði hún bara og hélt áfram göngu sinni. Þetta var súrrealískt augnablik. Fyrir mér er þetta ein hjartnæmasta stund sem ég hef upplifað af hjónaböndum og hefur orðið til þess að ég hef á köflum haft tilhneigingu til að endurskoða alla mína lífsspeki.

 

Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?

 Já, ég fór holu í höggi á blaðamannafundi þegar ég vann hjá Golfsambandi Íslands. Við vorum að kynna mótaröðina vorið 1999 og buðum blaðamönnum í golf hjá Keili. Þetta gerðist á 4. braut. Skúli Unnar Sveinsson, fyrrverandi starfsfélagi minn á Morgunblaðinu, var með mér í holli. Fréttirnar voru komnar á mbl.is eftir fimm mínútur. Verð þó að þakka Inga Rúnari Gíslasyni golfkennara fyrir þetta, þar sem hann var einnig með mér í holli og hafði sagt mér nákvæmlega hvernig ég ætti að slá. Hefði aldrei getað þetta án hans. 

 

Hver er frægasta persónan sem þú er með í símanum?

 Það er fyrrnefndur Kristján Jónsson, íþróttablaðamaður á Morgunblaðinu. Hann gæti náð heimsfrægð ef hann heldur áfram vel á pennanum. 

 

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

 Þarna þarf ég aftur að benda á Fisher bekkjarbróður. Bíð eftir að hann sigri á risamóti. Þá mun frægðarsól hans auðvitað rísa umtalsvert. 

 

Hvaða keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?

Ég er hrifnari af holukeppni, aðallega vegna þess að í því fyrirkomulagi verður fólk viljugra til að taka áhættu og nýta sér þannig þá valkosti sem ég vil bjóða uppá í taktík hverrar golfbrautar. Höggleikur á það til að framkalla hálf leiðinlegt og tilbreytingasnautt golf.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf, ef svo er, hvernig? 

Nei í raun ekki. Ég held ég hafi engar fastar venjur svo ég viti til.

Staðreyndir:
Nafn: Edwin Roald Rögnvaldsson
Aldur: 35
Klúbbur: GEY, Golfklúbburinn Geysir.
Forgjöf: 5,8
Masters eða Opna breska? Opna breska
St. Andrews eða Pebble Beach? St. Andrews
Uppáhalds matur: Fiskisúpan hjá Örvari Birgissyni í Nýja kökuhúsinu
Uppáhalds drykkur: “No comment”
Uppáhalds golfhola: 10. braut, Gíbraltar-holan, á Moortown, Norðaustur-Englandi.
Erfiðasta golfholan: 17. braut, Road Hole, á gamla vellinum í St. Andrews.
Ég hlusta á: Mikið af íslenskri tónlist, sérstaklega Sigur rós.
Besti völlurinn: Royal Melbourne í Ástralíu.
Besta skor (hvar): 71 (-1). Merrist Wood Golf Club, Englandi, og á Hlíðavelli í Mosfellsbæ (fyrir stækkun).
Besta vefsíðan: www.why18holes.com 
Besta blaðið: National Geographic.
Besta bókin: Er með valkvíða og takmarka því valið við golfbækur: The Spirit of St. Andrews eftir Alister Mackenzie.
Besta bíómyndin: 
La vita è bella.
Besti kylfingurinn: Bobby Jones. Vann 13 risamót, gerðist aldrei atvinnumaður og hætti keppnisgolfi 28 ára vegna veikinda sem höfðu plagað hann um árabil. Á sama tíma hafði hann lokið við þrjár háskólagráður; vélaverkfræði, lögfræði og enskar bókmenntir. Geri aðrir betur.

 

 

Golfpokinn
Dræver: Mizuno Forged MP-001 9 gráður
Brautartré: Srixon Z-Star
Blendingur/Hybrid: Adams Idea 
Járn: Ping i10 hvítur
Fleygjárn: Titleist Vokey
Pútter: TaylorMade Ghost Spider
Hanski: Nota ekki hanska
Skór: Ecco Street

Auglýsingar

 

Mynd augnabliksins

wp_20130728_009.jpg

Dagatal

« Október 2020 »
SMÞMFFL
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

Á nćstunni

Engir viđburđir á nćstunni

Póstlisti

Svćđi

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya